Enski boltinn

„Við þurfum níu stig til að vinna titilinn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep er að reyna vinna fjórða Englandsmeistaratitilinn í röð.
Pep er að reyna vinna fjórða Englandsmeistaratitilinn í röð. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Pep Guardiola segir sína menn þurfa að vinna þá þrjá leiki sem Manchester City á eftir í ensku úrvalsdeildinni ætli liðið sér að verða Englandsmeistari fjórða árið í röð. Lærisveinar Pep lögðu Úlfana 5-1 í dag.

„Ég myndi segja að úrslitin væru betri en frammistaðan, við misstum boltann klaufalega í fyrri hálfleik. Við sköpuðum mörg færi en þurfum að skora meira. Úlfarnir eru með góðan kjarna, mikil gæði og sterkir líkamlega. En góð úrslit og við erum hamingjusamir,“ sagði Pep eftir sigur dagsins.

Pep var spurður hvort Man City hefði sent skilaboð með sigri dagsins. Hann var ekki á því og hrósaði Mikel Arteta, fyrrum samstarfsmanni sínum, fyrir starf sitt hjá Arsenal.

„Hann (Arteta) vinnur leiki og Arsenal vinnur leiki örugglega. Það er ein vika eftir, tvær með ensku bikarkeppninni (þar sem Man City mætir Man United í úrslitum annað árið í röð). En enska úrvalsdeildin, þar er vika eftir og þrír leikir.“

„Við þurfum að ná í níu stig í þeim leikjum því annars vinnur Arsenal deildina. Vonandi getum við snúið aftur hingað eftir nokkra daga og átt þann möguleika að vinna titilinn þegar West Ham United mætir hingað.“

„Hann hefði getað spilað til enda leiksins en Julian Álvarez hefur verið svo mikilvægur, mínúturnar hans hafa skipt sköpum. Julian hefur spilað vel svo við vildum gefa honum mínútur. Rico Lewis hefur einnig spilað vel en enn á ný gat ég ekki gefið honum mínútur. Hann var besti maður vallarins gegn Crystal Palace en það eru allir við hestaheilsu og klárir í bátana fyrir það sem bíður okkar,“ sagði Pep að lokum.

Man City er nú með 82 stig að loknum 35 leikjum í 2. sæti, stigi á eftir Arsenal sem trónir á toppnum en hefur leikið leik meira. Úlfarnir eru í 11. sæti með 46 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×